Til hamingju, Jóhann Stígur!

verdlaun.16Skóla- og frístundaráð veitti í gær, mánudaginn 23. maí, svokölluð nemendaverðlaun þeim nemendum í grunnskólum Reykjavíkur, sem staðið hafa sig framúrskarandi vel í námi og/ eða félagsstarfi. Jóhann Stígur Eiríksson, nemandi í 10. bekk, var tilnefndur til verðlaunanna úr Klettaskóla og var hann á meðal annarra verðlaunahafa, sem fékk bók og viðurkenningarskjal af þessu tilefni. Jóhann Stígur er vel að þessari tilnefningu kominn, en hann hefur stundað nám sitt af kostgæfni og verið góð fyrirmynd sem félagi annarra nemenda í skólanum. Jóhanni er óskað innilega til hamingju með verðlaunin, en hann lýkur námi við skólann í vor. Jóhann Stígur er í fremstu röð, lengst til hægri í grænni peysu á meðfylgjandi mynd frá verðlaunafhendingunni í gær.

 

Vegleg gjöf frá "Umhyggju"

Umhyggja.16Fulltrúi frá félaginu Umhyggju kom í skólann í dag, mánudag, 23. maí, með myndarlega gjöf sem er fjárframlag uppá 400 þúsund krónur til tækjakaupa eða e-s annars, sem kemur nemendum Klettaskóla til góða. Umhyggja er félag „sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra“, eins og segir á heimasíðu félagsins. Á meðfylgjandi mynd má sjá skólastjórnendur ásamt nokkrum nemendum taka við þessari höfðinglegu gjöf frá talsmanni Umhyggju, en Klettaskóli mun vera einn af 10 skólum, sem félagið styrkir nú með þessum hætti. Fær það bestu kveðjur úr skólanum og þakkir fyrir þá velvild, sem nemendum hans er sýnd.  

Útskriftarnemar á faraldsfæti

eyjar.16Á morgun, miðvikudag 18. maí, halda nemendur úr 10. bekk af stað í útskriftarferð til Vestmannaeyja. Að þessu sinni telur hópurinn með starfsfólki 24 manns, og liggur leiðin um Suðurlandsundirlendið til Hvolsvallar, þar sem snæddur verður hádegismatur. Úr Landeyjum verður svo haldið með Herjólfi kl. 12:30 og við komuna á Heimaey hefst óslitin gleði- og skemmtidagskrá fram á föstudag, þegar haldið verður heim á ný. M.a. verður farið í útsýnisferðir á landi sem legi, söfn skoðuð og veitingastaðir heimsóttir, sprangað og spásserað um torg og stræti að hætti langsigldra ferðalanga! Gist verður á Hóteli Vestmannaeyja, en veðurguðir lofa sólríku veðri og suðlægum vindum.   Reiknað er með því, að þreyttir en sælir Eyjafarar verði mættir við Klettaskóla um kl. 15:00 á föstudag.

Góður umhverfisdagur

umhverfi.16Umhverfisdagurinn þann 25. apríl tókst vel enda var veðrið gott, glampandi sólskin og enginn að tala um kulda. Skemmtilegt frá því að segja að við fengum lánuð vekfæri hjá Kirkjugörðunum, kústa, hrífur, skóflur – og fernar hjólbörur, og þökkum við kærlega fyrir lánið. Hjólbörurnar spöruðu okkur notkun plastpoka: markmiðið var að koma öllum úrgangi á réttan stað. Allt var flokkað: sandur fór í jarðefni, gróðurúrgangur fór í þar til gerða holu; plast og pappír fór á sína staði. Mjög lítið var eftir í blandaðan úrgang. Öll skólalóðin var undir í þessu verkefni, einnig grenndarskógurinn og svæðið utan skólalóðar þar sem rúturnar koma. Hjólbörurnar gerðu mikla lukku og sumir fengu fría ferð eftir losun. Allir lögðu eitthvað af mörkum – takk fyrir góðan dag.

Góðar gjafir til skólans!

sessur.1630 sessur voru gefnar skólanum í dag, föstudag 29. apríl, en gefandinn er Aðalheiður Magnúsdóttir frá fyrirtækinu The Bugs Company. Sessur sem þessar hafa nýst vel, sérstaklega fyrir yngri nemendur, en þær eru bæði þægilegar og stamar og gerir nemendum auðveldar en ella að sitja við borð í góðri setustöðu og einbeita sér að námi. Skólastjóri og fulltrúi nemenda tóku á móti þessari góðu gjöf í miðrými eldri nemenda, en meðfylgjandi mynd var tekin af þessu tilefni. Gefanda er þakkað kærlega fyrir vinsemd og hlýjan hug til skólans og nemenda hans.